Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Kristján Jóhann Jónsson

Bókin er byggð á rannsókn sem unnið var að á árunum 2013-2016 og var samstarfsverkefni tveggja háskóla, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Höfundar bókarinnar eru sjö íslenskukennarar við þessa skóla en þátt tóku auk þeirra meistara- og doktorsnemar við báða skólana. Verkefnið var unnið í samvinnu við starfandi kennara og stjórnendur í 15 grunnskólum og framhaldsskólum.

Staða íslenskrar tungu hefur verið mjög til umræðu síðustu mánuði, margir hafa áhyggjur af þróun hennar og mjög oft er skólakerfinu kennt um. Kveikjan að rannsókninni sem liggur til grundvallar, „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ (ÍNOK) var þörfin á því að kanna stöðu íslenskukennslunnar, eins og hún er stunduð í skólum landsins.

Rannsóknin er einstök í sinni röð vegna þess að hún tekur til allra þátta íslenskukennslunnar og rannsakendur eru fagmenn á sviði íslenskukennslu. Fyrri rannsóknir á íslenskukennslu hafa fengist við afmörkuð svið hennar; skólamálfræði, áhrif samræmdra prófa, kennsluaðferðir, námskrárfræði og menningarlæsi leikskólabarna svo nokkuð sé nefnt. Allt rannsóknir sem mikill fengur er að en hér er dregin upp ný heildarmynd. Einnig er um þessar mundir unnið að viðamikilli rannsókn á áhrifum ensku á íslenska tungu og framtíð tungumálsins.

Rannsóknin á íslenskukennslu sýnir jákvætt og virðingarvert starf í grunn- og framhaldsskólum landsins en þar eru líka brestir og þörf á stefnumörkun sem byggð er á samstarfi við kennara.