Himnasendingar með dróna spurningar, svör og leiðbeiningar


Ég hef pantað áður og vil panta aftur

Smelltu hér til að hefja ferlið í veitingum eða smelltu hér til að hefja ferlið og panta matvöru

Hvað eru himnasendingar?

Himnasendingar eru sendingarmáti þar sem notuð eru ómönnuð loftför til að senda vöru eða mat á hraðasta mögulega hátt beint heim í garð til þín. Þessi sendingarmáti er öruggari, og verður í framtíðinni ódýrari en aðrir sendingamátar sem eru í boði. Aha og heimsendingardrónafyrirtækið Flytrex hófu samstarf í þróun slíkrar þjónustu 2016, drónarnir sem eru notaðir eru nú meðal öruggustu og mest flognu heimsendingardróna í heimi.

Hvert er hægt að fá Himnasendingu?

Eins og er er hægt að fá himnasendingu í póstnúmerum 103,104,105,108,109,110,111 og 112 en það takmarkast þó af því að við getum ekki flogið lengra en rúmlega 4km frá Skeifunni og ekki nær flugvellinum en 2km. Ef mikill vindur er minnkum við svæðið í samræmi við vind.
Flugsvæði

Eru sendingar með dróna öruggar?

Já! allt ferlið frá umsókn til framkvæmdar stýrist fyrst og fremst af öryggissjónarmiðum. Við teljum að minni hætta sé á slysum á fólki við drónasendingar en þegar vara er send með bíl. Reynsla okkar hingað til, sem telur núna mörg ár, sýnir að það sé raunin.

Hvernig panta ég sendingu með dróna hjá ykkur?

Á aha.is er valinn afhendingarmátinn "Himnasendingar", þar velur þú þann afhendingarpunkt sem þú vilt sækja pöntunina á. Við höfum sett upp afhendingarpukt við yfir 2000 heimili. Þegar búið er að velja afhendingarpukt þá koma upp þeir veitingastaðir sem við bjóðum upp á himnasendingar með. Þú velur svo uppáhalds vöruna þína og setur í körfu.

Hvernig veit ég hvort heimilisfangið mitt er uppsett fyrir himnasendingu?

Veldu heimilisfangið þitt efst á síðunni, ef það kemur upp valkostur um að breyta í himnasendingu er það þegar virkt. Að öðrum kosti getur þú sótt um afhendingarpunkt hér

Hvar lendir dróninn?

Himnasendar lenda ekki! Þegar hann kemur á afhendingarstað lækkar hann flugið niður í 25 m hæð og lætur poka síga hægt og örugglega með bandi niður í garðinn hjá þér. Þegar pokinn er lentur hækkum við flugið og drögum bandið inn.

Lendir pakkinn alltaf á sama stað?

Já - nema þú biðjir okkur um að færa punktinn, þá ætti pakkinn að lenda á sama 2x2 metra fletinum í hvert skipti. Þú sérð í fyrsta flugi nokkurn veginn hvar hann lendir og getur látið vita í ferlinu ef sá staður hentar illa.

Heimilisfangið mitt er ekki virkt í himnasendingum, en mig langar samt að prófa.

Þú getur valið einn af opnu afhendingarstöðunum okkar í Reykjavík. Opnaðu heimsendingarvalmöguleikann efst á síðunni eða í appinu, smelltu á Himnasendingar og veldu stað af kortinu, tilvalið að skella sér í labbitúr eða lautarferð með teppi og drykki og maturinn sígur ofan af himnum.

Lautarferð hljómar spennandi - hvernig ber ég mig að?

Þú getur t.d. farið í Elliðaárdalinn eða Laugardalinn, dæmi um skemmtilega staði til að móttaka pöntun á eru Indjánagil við Kermóafoss eða Þvottalaugarnar í Laugardal. Ekki panta fyrr en þú ert á staðnum eða 10 mínútum frá honum. Mundu að ganga vel um umhverfið og ganga frá eftir matinn.

Eru þetta fjarstýrðir drónar?

Himnasendarnir eru sjálfstýrðir og fljúga eftir fyrirfram ákveðnu flugneti.

Hvernig veit ég hvenær sendingin kemur?

Himnasendirinn bankar að sjálfsögðu ekki heima hjá fólki, hann skilur pakkann eftir í garðinum. Þú færð sms þegar drónin leggur af stað og getur fylgst með staðsetningu hans í rauntíma. Þjónustan er hraðari en með bíl og maturinn nær að halda betur hita.

Verður maturinn kaldur?

Nei, flest flug taka minna enn 5 mínútur, maturinn er settur inn í kassa sem ver hann fyrir veðri og vindum. Maturinn er því jafnheitur eða heitari en ef við hefðum sent hann með bíl.

Hvað fer hann hratt?

Himnasendirinn fer að meðaltali á 55km/klukkustund. Hann flýgur í beinni línu til þín og stoppar ekki á rauðum ljósum.

Er mikill hávaði?

þegar dróninn er í 70 m og á flugi er truflun lítil sem engin. Við afhendingu heyrist í honum þegar staðið er á afhendingarstað. Okkar reynsla er að nágrannar taka ekki eftir drónaafhendingu, hvað þá ef þeir eru innandyra.

Eru myndavélar á drónanum?

Nei, dróninn notast við margskonar skynjara en ekki við myndavélar af persónuverndarástæðum.

Er þetta umhverfisvænt?

Já! þetta er að við teljum einn umhverfisvænasti afhendingarmáti sem til er! fyrir utan kannski að afhenda með hestum. Þjónustan fékk verðlaun sem umhverfisframtak ársins 2021

Umhverfisframtak ársins 2021 - Aha.is from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Hvenær get ég pantað?

Það er opið fyrir Himnasendingar alla daga milli 11 - 20 þegar veður leyfir. Við miðum við að loka þegar vindur er mikið yfir 10 m/s eða líkur eru á rigningu.

Hvað geri ég næst?

Smelltu efst á síðuna og veldu Himnasendingar og afhendingarstað. Þegar því er lokið geturðu valið veitingar eða matvöru til að fá heimsent.