Nietzsche er líkast til sá heimspekingur sem frægastur er utan raða fræðimanna, hann er í senn dáður og alræmdur. Fáir heimspekingar hafa verið mistúlkaðir jafnhrapallega en á fáum er líka jafnerfitt að henda reiður. Sjálfur lýsti hann sér svo að hann væri ekki manneskja heldur dínamít.
Handan góðs og ills, sem upphaflega kom út árið 1886, er eitt af höfuðverkum Nietzsches og að mörgu leyti besti inngangurinn að heimspeki hans. Þótt verkið hafi form fjölda stuttra og oft sundurlausra greina eins og mörg önnur rit hans, eins þótt þar skiptist á sjónarhorn og málflutningurinn orki á köflum þversagnakenndur, er það þegar öllu er á botninn hvolft heilsteypt og hrífandi. Og þar birtist djúp og næm hugsun Nietzsches um viðfangsefni sín: siðferðið, sannleikann og heimspekina. Mikið fer fyrir gagnrýni á vestrænar siðferðishugmyndir; þrælasiðferði trúarinnar sem þjakar mannsandann, siðferðilega nytjahyggju og hjarðmennsku. Í því sem hann kallar „náttúrusögu siðferðisins“ leitar hann róta siðferðisins og rekur hvernig hann telur að það hafi úrkynjast. Hann deilir líka hart á ýmsa heimspekinga fyrri tíma og glórulausa leit þeirra eftir sannleikanum og boðar nýja manngerð og nýja tegund heimspeki sem ekki byggir á slíku annarlegu verðmætamati og siðferðisfordómum. Það sem koma skal eru frjálsir andar.
Nietzsche er þó ekki rétt túlkaður þannig að hann sé boðberi eiginlegs siðleysis. Það sem hann hvetur til er heldur fordómalaus og djörf endurhugsun allra gilda. Framsetning hans er aftur á móti vægðarlaus og hárbeitt. Honum er einkar lagið að tjá hugsun sína á skarplegan og lifandi en jafnframt meitlaðan hátt, með myndrænni hugsun og næmri tilfinningu fyrir málinu. Honum er í nöp við alla hálfvelgju, enda eru yfirlýsingar hans stórorðar. Allt gerir þetta Handan góðs og ills að skemmtilegri og töfrandi lesningu, sem vekur lesandann jafnframt til djúprar umhugsunar. Hann á ekki annars kost en að stíga inn í verkið og taka afstöðu til gagnrýni Nietzsches, reyna að ráða fram úr hinum óvæntu myndlíkingum hans og komast að því upp á eigin spýtur hver sé hinn eiginlegi boðskapur höfundar.
Þessari vönduðu þýðingu fylgir allítarlegur inngangur Arthúrs Björgvins Bollasonar þar sem lífshlaup höfundarins og ýmis meginstef heimspeki hans eru rakin.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun