Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Annað hefti Tímarits Máls og menningar árins 2019 er helgað Bókmenntahátíð í Reykjavík sem stendur frá 24. til 27. apríl. Fjallað er um átta af erlendu gestunum í heftinu og birtar nýjar þýðingar á sögum eftir tvær skáldkonur sem sækja hátíðina heim, Lily King frá Bandaríkjunum og Samöntu Schweblin frá Argentínu.

Heftið er óvenju efnismikið og girnilegt að þessu sinni, auk erlendu smásagnanna geymir það íslensk og þýdd ljóð, meðal annars nýtt ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur. Davíð Hörgdal Stefánsson birtir seinni hluta greinar sinnar um tónskáldið Jóhann Jóhannsson og verk hans, Soffía Auður Birgisdóttir rýnir í skáldsögur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu, Kari Grétudóttir greinir orðræðu um myndlist sem kölluð hefur verið „alþjóðleg lista-enska“ og Jón Karl Helgason varpar bráðskemmtilegu ljósi á klisjur kvikmyndaiðnaðarins um norræna víkinga.

Að venju teygir Guðmundur Andri Thorsson sig í skræðu úr bókaskápnum og fyrir valinu verða bréf séra Matthíasar Jochumssonar. Þá er í heftinu gullfalleg frásögn frá Stokkhólmi eftir Hjört Pálsson, umsagnir um sex nýjar bækur og fleira. Auður Jónsdóttir lýsir svo í hugvekju sinni þeim suðupotti sem Bókmenntahátíðin er og bregður upp eftirminnilegum myndum af fyrri hátíðum.

Kápumynd og teikningar af höfundunum átta eru eftir Helgu Páleyju.