Barflugumyndir Snorrabræðra eru klassík. Fyrirsætan er gestur Kaffibarsins, hún horfir upp í 50 mm linsuna á Hasselblad-vélinni, stórum augum; stundum ögrandi, stundum viðkvæmnislega. Svarthvít áferðin skapar tilfinningu fyrir afstæði tímans: Var myndin tekin í gær eða fyrir aldarfjórðungi? Nýir gestir og nýir leikendur koma inn á sviðið en allir eru þeir greiptir í mótið sem Eiður Snorri og Einar Snorri sköpuðu fljótlega eftir að Kaffibarinn hóf rekstur árið 1993. Sumir eru fyrst og fremst frægir fyrir að mæta á barinn hverja helgi, aðrir eru frægir af afrekum sínum á menningarsviðinu, sumir meira að segja heimsfrægir.
Eiður Snorri og Einar Snorri þjöppuðu saman stemmningunni. Bjuggu til minnismerki um tíðaranda og andrúmsloft. En öfugt við þau örlög sem henda flesta bari og veitingarhús í Reykjavík lifði Kaffibarinn fram á nýja öld og áfram í áratugi. Nú er hann aldarfjórðungsgamall og í tilefni af þessum merku tímamótum var leikurinn endurtekinn, ný og gömul andlit kvöldd til og búin til svipmynd af lífinu á Kaffibarnum í 25 ár.
Eiður Snorri og Einar Snorri voru fyrirferðarmiklir í íslensku menningarlífi í upphafi tíunda áratugarins en hösluðu sér síðan völl í Bandaríkjunum og hafa búið þar að mestu síðan 1995. Þeir hafa unnið að fjölda ljósmyndaverkefna og gert tónlistarmyndbönd og stuttmyndir auk þess sem þeir þróuðu tækni við kvikmyndatökur sem við þá er kennd og hafði byltingarkennd áhrif.