Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Guðmundur Brynjólfsson

Þvílík vika er kraftmikil unglingasaga úr samtímanum sem gerist á einni viku í byrjun júní. Þrír vinir eru að ljúka grunnskóla og ætla að fagna því rækilega. En margt getur breyst á einni viku og ýmislegt fer öðruvísi en þeir höfðu ætlað.

Bókin hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2009. Þessi verðlaun hafa fest sig vel í sessi síðan þau voru veitt fyrst 1986 og margir af okkar dáðustu barnabókahöfundum hafa unnið til þeirra. Af þeim má nefna Herdísi Egilsdóttur, Iðunni Steinsdóttur, Þorgrím Þráinsson, Brynhildi Þórarinsdóttur og Friðrik Erlingsson. Þvílík vika var valin úr hópi 35 innsendra handrita.

Guðmundur Brynjólfsson er bókmennta- og leikhúsfræðingur að mennt og hefur auk þess lokið djáknanámi. Á síðasta ári sigraði hann í samkeppni Forlagsins og barnabókahátíðarinnar Draugar úti í mýri um draugasmásögur fyrir börn með sögu sinni At? Árið 2006 hreppti leikrit hans Net 2. sæti í handritasamkeppni Borgarleikhússins og leikrit sem hann skrifaði í félagi við Berg Ingólfsson, 21 manns saknað, var tilnefnt til Grímuverðlaunanna fyrr á þessu ári. Um þessar mundir er annað leikrit eftir þá félaga, Horn á höfði, á fjölum Grindvíska atvinnuleikhússins.