Robin S. Sharma, höfundur bókarinnar Uppgötvaðu köllun þína með hjálp munksins sem seldi sportbílinn sinn – Hið sjö stiga ferli sjálfsuppgötvunar, er löngu heimsþekktur fyrir bók sína Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir nokkrum árum og seldist í yfir 12.000 eintökum.
Hér segir frá Dar Sandersen, sem nýtur velgengni í starfi og virðist lifa hinum fullkomna lífi, en einn daginn hrynur veröld hans til grunna; sókn eftir veraldlegum gæðum, frægð og frama hefur svipt hann öllu sem máli skiptir og hann fyllist vonleysi. En þegar öll sund virðast lokuð haga örlögin því svo að hann hittir Julian Mantle, munkinn sem seldi sportbílinn sinn, og nýr kafli hefst í lífi hans.
Á ferð sinni um sjálfsuppgötunvarstigin sjö lærir Dar að lifa lífinu til fullnustu og láta ljós sitt skína; finna sér stökkpall til frekari andlegs þroska. Í bókinni eru hagnýt ráð og hvatning til að líta á sjálfan sig sem verk í mótun; áminning um að maður búi yfir ónýttum hæfileikum sem þarf að finna og rækta.