Þessi myndræni leiðarvísir sýnir okkur jörðina í öllum mikilfengleik sínum og fegurð – leiðir lesandann um fáfarna stigu, frá neðansjávargljúfrum til gróskumikilla regnskóga, um freraveröld heimskautanna og alla leið út í geiminn.
Jörðin er tímamótaverk þar sem saman fara frábærar ljósmyndir og vandaður texti, unninn af sérfræðingum. Hér er því hægt að kynnast mörgum sérkennilegustu og mögnuðustu stöðum jarðar – allt frá brennheitri Atacamaeyðimörkinni til ógnvænlegra eldgosa Etnu og frá ánni Níl til víðáttu Kyrrahafsins.
Einstætt, sjónrænt yfirlit yfir helstu perlur og dásemdir jarðarinnar myndar kjarna bókarinnar. Mikilvægum þáttum á landi, hafsbotni og í andrúmsloftinu er lýst í máli og myndum og þeir nákvæmlega staðsettir á yfirlitskortum. Í bókinni er enn fremur lögð áhersla á gagnkvæm áhrif manna og umhverfis og tekist á við vandasöm álitamál, svo sem fjölgun mannkyns og eyðingu skóga, með áhrifamiklum hætti.
Flókin ferli eru gerð hverjum manni skiljanleg með hjálp kunnáttusamlega tölvuteiknaðra skýringarmynda og aðgengilegum og skýrum texta. Sem dæmi um fjölmargar fræðinýjungar í bókinni má nefna nútímahugmyndir manna um uppruna jarðarinnar, myndun kalksteinsrifja neðansjávar úr lifandi kóröllum, og þau kerfi og hringrásir sem valda loftslagsbreytingum.
Þetta mikla verk veitir með skýrum, traustum og afar myndrænum hætti óviðjafnanlega sýn á samspil allra þeirra þátta sem móta okkar síbreytilegu reikistjörnu.
Bókin er samstarfsverkefni Smithsonianstofnunarinnar í Bandaríkjunum og bókaútgáfunnar Dorling Kindersley. Ritstjóri íslensku útgáfunnar var Sigríður Harðardóttir og þýðendur eru: Sigurður Steinþórsson, Helga Þórarinsdóttir, Ágúst H. Bjarnason, Páll Bergþórsson, Jóhann Ísak Pétursson, Guðríður Arnardóttir og Völundur Jónsson. Yfirlestur annaðist Helgi Grímsson. Guðmundur Þorsteinsson annaðist tölvuvinnslu og umbrot og Jón Torfason gerði atriðisorðaskrá.
Bókin er í stóru broti, prýdd meira en 2000 myndum.