„Í styrjöld munu þeir einir miður hafa er trúa stáli.“
Gerpla er eitt af stórvirkjum Halldórs Laxness. Sagan gerist á 11. öld þegar tveir vestfirskir garpar sverjast í fóstbræðralag að fornum sið. Þorgeir Hávarsson er vígreifur kappi sem vill heldur herja en hokra. Þormóður Bessason er hæglátt skáld sem ann konum og hetjum meir; meðan hann situr heima í friði fer Þorgeir í víking og finnur sér kóng að berjast fyrir en lætur að lokum líf sitt. Þá er skáldið skyldugt að halda af stað og hefna fóstbróður síns og yrkja kóngi hans dýr kvæði.
Gerplu má kalla rangsnúna hetjuharmsögu. Hún er í sögualdarstíl en hetjurnar fallnar af stalli. Sagan er margræð og beitt háðsádeila á stríðsrekstur og hetjudýrkun að fornu og nýju – en ekki síður á þá sem fylgja í blindni leiðtoga eða hugsjón og fórna allri mennsku fyrir ímyndaða dýrð.
Gerpla kom fyrst út árið 1952, naut vinsælda frá upphafi og átti eflaust drjúgan þátt í að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun