Karlmaður finnst myrtur og hrottalega útleikinn í búningsklefa íþróttahúss í úthverfi Stokkhólms. Skömmu síðar kemur í ljós að kona hans og dóttir hafa verið myrtar af sama hömluleysi. En sonurinn í fjölskyldunni lifir, helsærður. Joona Linna lögregluforingi hefur samband við Erik Maria Bark lækni og fær hann til að dáleiða drenginn til þess að segja frá því sem gerðist. Þar með brýtur læknirinn það loforð sitt að dáleiða aldrei framar og um leið fer af stað hrikaleg og ófyrirséð atburðarás.
Dávaldurinn eftir Lars Kepler er ein umtalaðasta og mest selda spennusaga sem út hefur komið á Norðurlöndum á síðustu árum og hefur útgáfurétturinn verið seldur til 32 landa. Hún er í senn sálfræðitryllir og hrollvekjandi glæpasaga sem heldur lesandanum í heljargreipum frá fyrstu blaðsíðu.
Það varð heilmikið fjaðrafok í Svíþjóð í kringum skáldanafnið Lars Kepler þegar Dávaldurinn kom út – enda vakti bókin gríðarlega athygli og rauk beint á topp sænskra metsölulista. Ýmsar tilgátur voru settar fram um hver stæði á bak við Kepler-nafnið og voru margir þekktir glæpasagnahöfundar sagðir koma til greina. Það var svo Aftonbladet sem tókst að safna saman tíu afar sannfærandi vísbendingum og rekja slóðina til hjónanna Alexöndru og Alexanders Ahndoril, sem fljótlega gengust við „glæpnum“. Alexandra er meðal annars þekkt fyrir að skrifa bókmenntarýni og hefur sent frá sér þrjár skáldsögur. Alexander hefur samið átta skáldsögur og fimmtán leikrit.
Jón Daníelsson þýddi.
ATH. Hljóðbókin er afhent rafrænt og hægt er að hlusta á hana beint í gegnum app Forlagsins eða vafra. Hér má lesa meira um hljóðbækur fyrir appið.
Hljóðbókin er 17 klukkustundir og 42 mínútur að lengd. Kristján Franklín Magnús les.