Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundar: Björk Ingimundardóttir, Gísli Baldur Róbertsson

Yfirrétturinn á Íslandi – Dómar og skjöl kom út á vegum Sögufélags og Þjóðskjalasafns Íslands.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittir dómar og allmikið af málsskjölum yfirréttarins, sem bregða ljósi á stjórnsýslu, réttarfar og líf almennings á Íslandi á 18. öld. Einnig er nokkuð um málsskjöl í safni Árna Magnússonar frá málum sem hann og Páll Vídalín áttu að rannsaka og dæma í. Dómar þeirra flestir komu fyrir yfirrétt, svo sem í máli Jóns Hreggviðssonar. Einnig eru málsskjöl í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Í þessu fyrsta bindi verksins er fræðileg ritgerð eftir Björk Ingimundardóttur um sögu og starfsemi yfirréttarins, auk yfirlits yfir mál sem líklega hafa farið fyrir yfirrétt, en dómar og málsskjöl eldri en frá árinu 1690, og óyggjandi má telja upprunnin frá yfirrétti, hafa ekki varðveist. Fjöldi mynda af skjölum, innsiglum og undirskriftum eru birt í ritinu, auk nokkurra teikninga frá Þingvöllum frá fyrri öldum. Allmörg skjöl eru birt sem varpa ljósi á stofnun og starfsemi yfirréttarins. Megintexti bókarinnar er síðan dómar og málsskjöl frá árunum 1690-1710. Í viðauka eru birt ýmis skjöl sem bregða ljósi á málsatvik einstakra dóma og mála sem fyrir réttinn komu.

Fræðileg vinna við uppskriftir og frágang alls texta, auk annarrar vinnu sem tengist undirbúningi útgáfunnar, hefur verið í höndum starfsmanna Þjóðskjalasafnsins. Í ritstjórn, sem skipuð var 2008, sitja fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands Hrefna Róbertsdóttir sem fer fyrir nefndinni og Eiríkur G. Guðmundsson, og fyrir hönd Sögufélags Anna Agnarsdóttir og Már Jónsson.