Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundar: Rán Flygenring, Steingrímur Sigurgeirsson

Það er gömul speki hjá grónum vínræktar- og bjórgerðarþjóðum, að ef ætlunin sé að drekka bæði vín og bjór og halda haus skuli vínið koma á hæla bjórnum. Þessa viska aldanna réði því líka að á hæla metsölubókarinnar Bjór kemur nú stórvirkið Vín.

Heimur vínsins er margbrotinn og fjölskrúðugur, enda er hvert vín einstakt. Það er afrakstur veðurs og vinda, jarðar og gróðurs, umhyggju og natni, hefða og hugvits. Fáir núlifandi menn í Norður-Atlantshafi þekkja þennan heim jafn náið og Steingrímur Sigurgeirsson sem hefur um áratugaskeið frætt samferðarmenn sína um unaðssemdir vínsins og bragðað á jafnvel sjaldgæfustu veigum jarðar.

Hvort sem það er rautt eða hvítt, freyðandi eða sætt, bleikt eða styrkt: aldrei kemur lesandinn að tómum kofunum hjá Steingrími. Hann opnar 110 vínflöskur, lýsir uppruna og einkennum, og leiðir þekkingarþyrsta lesendur með sér í töfrandi heimsreisu.

Líkt og í Bjórnum er það listateiknarinn Rán Flygenring sem lýsir einkennum og eðli tegundanna og hefur sér nú til fulltingis þær Lóu Hjálmtýsdóttur og Siggu Björgu. Saman skapar þetta landslið íslenskra teiknara myndrænt meistaraverk sem lyftir viðfangsefninu á nýtt og æðra svið.