Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Guðmundur Óli Sigurgeirsson

Við ána sem ekki var eru æskuminningar af bökkum Þverár á Rangárvöllum. Hér segir frá á sem ekki var lengur til staðar, útvarpsfólki sem býr í rafhlöðunni, jötunuxunum í fjóshaugnum, bóklestri á kamrinum og köppum Njálu ljóslifandi í næsta nágrenni.

Á sjötta áratug 20. aldar er hvorki rafmagn, sími né rennandi vatn á bænum Eystra-Fróðholti á Rangárvöllum. En þar er gott mannlíf sem sólin yljar og regnið vökvar. Frostið brúar vatnsföll um vetur og leikvöllurinn er sandur, sem nóg er af.

Við fylgjum jafnt þroska höfundar og tækniþróun hins frumstæða bændasamfélags. Fyrst komu spýtukarlar og svo ýtukarlar. Höfundurinn sjálfur er orðinn ökumaður þegar draga þarf traktor ofan af dreng á næsta bæ. En grætur eins og barn þegar líkami Óla er borinn líflaus inn í bæ.

Þó Bakkabæir séu skildir frá meginhluta Rangárvalla af vatnsföllum, er paufast í skóla á Strönd og ungmenni fá skólun í ástum þegar vinnuhjúin á Móeiðarhvoli taka til við kossa í Fljótshlíðarferð á Landrovernum.

Hugljúf saga af horfnu mannlífi og íslenskri sveitamenningu á krossgötum, skreytt fjölda teikninga eftir Pál Ragnarsson.