Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Stefan Zweig

„… mætti einna helst líkja mér við þul á skuggamyndasýningu. Tíminn leggur til myndirnar, orð mín fylgja til skýringar, og í rauninni eru það ekki fyrst og fremst afdrif mín, sem ég segi frá, heldur örlög heillar kynslóðar, sem forsjónin hefur lagt meira á herðar en flestum öðrum í tímanna rás.“

Veröld sem var er einhver áhrifamesta sjálfsævisaga rithöfundar sem út hefur komið. Höfundurinn fléttar lífshlaup sitt saman við umrótatíma í Evrópu á síðustu öld svo úr verður einstakur aldarspegill sem felur í sér mikilvæg varnaðarorð til komandi kynslóða.

Austurríski gyðingurinn Stefan Zweig hóf ritun sögunnar árið 1934 þegar uppgangur nasista var í algleymingi og útþensla Þriðja ríkisins ásamt víðtækum gyðingaofsóknum blöstu við öllum sem höfðu augun opin. Zweig flýði heimaland sitt og hélt til Englands og síðar Brasilíu. Þar lauk hann verkinu í febrúar 1942 og póstlagði handritið til útgefanda. Daginn eftir styttu Zweig-hjónin sér aldur, södd lífdaga í stríðshrjáðum heimi.

Sagan er listrænt uppgjör höfundarins við samtímann og lýsir á einstakan hátt hvernig kynslóð hans glutraði niður „gullöld öryggisins“ í skiptum fyrir veröld haturs og villimennsku.

Halldór J. Jónsson og Ingólfur Pálmason þýddu. Bókin kom fyrst út á íslensku árið 1958.

„…ég skora á sem flesta að draga fram þessa merku bók, hún á brýnt erindi við okkur hér um þessar mundir.“
Einar Kárason /

„… bók sem á stöðugt erindi … Þetta er bók sem er full af hlýju og viðkvæmni og þar er undirliggjandi tregi og söknuður vegna þess sem gerðist þegar hin góða veröld varð grimm og hættuleg og mannslíf urðu einskis virði. Veröld sem var er ein merkasta sjálfsævisaga sem skrifuð hefur verið og það ber að fagna endurútgáfu hennar. Þetta er bók sem á heima hjá öllum þeim sem vilja skilgreina sig sem bókaunnendur.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið