Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Frá ritstjóra:

Það hefur verið skemmtilegt að grípa enn á ný í að ritstýra Tímariti Máls og menningar, finna áhugann á því, lesa allt efnið sem berst, hvort sem það hafnar í ritinu eða ekki, spjalla við fólk um það, hlusta á gagnrýni og hrós. En nú er þetta millibilsástand á enda, því lýkur með þessu tölublaði. Frá og með næsta hefti verða ritstjórar þær Sigþrúður Gunnarsdóttir og Elín Edda Pálsdóttir. Sigþrúður er íslenskufræðingur, hún hefur lengi starfað við ritstjórn á Forlaginu og undanfarin ár hefur hún kennt ritlistar- og ritstjórnarnemum við Háskóla Íslands að ganga frá textum til útgáfu. Elín Edda er bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Lundi, hún hefur unnið í nokkur ár sem verslunarstjóri í Bókabúð Forlagsins. Þeim fylgja allar góðar óskir um góðan árangur og góða skemmtun í þessu nýja starfi.

Kápumyndin er að þessu sinni listaverk eftir Þuríði Sigurðardóttur myndlistarmann og vísar bæði til „Fjallkonuljóðs“ Lindu Vilhjálmsdóttur og greinar Andra Snæs Magnasonar í heftinu. Ljóð Lindu vakti mikla og verðskuldaða athygli þegar Sigrún Edda Björnsdóttir flutti það á Austurvelli 17. júní á sjaldgæfri sólskinsstund í sumar og er Tímaritinu heiður að fá að birta það. Grein Andra Snæs er hugleiðing í kjölfar frumsýningar kvikmyndarinnar Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson og mikilla vinsælda hennar hérlendis og erlendis. Það stendur stríð um náttúru Íslands og framlag kvikmyndarinnar, efnistaka hennar og frábærs leiks Halldóru Geirharðsdóttur og annarra leikara er mikilsvert framlag til varnar gersemunum sem við eigum
í óspilltri náttúru.

Um kápumyndina segir Þuríður: „Háspennumastur af þeirri gerð sem hér er klætt upphlut er hluti níu mynda raðar sem ég vann árið 2002 og nefnist „Hugarástand“. Frá því ég fyrst man eftir þessum „kvenlegu“ möstrum hef ég gert mér að leik að klæða þau í huganum í ýmiskonar fatnað – og væntanlega hefur hugarástand mitt ráðið því hver klæðnaðurinn varð. Í dag eru tilfinningarnar blendnar gagnvart möstrunum og ég vildi að náttúran væri án þeirra. En þau eru þarna og ég finn enn fyrir löngun til að halda leiknum áfram. Verkin eru unnin með blandaðri tækni.“

Með von um góðan bókavetur framundan,

Silja Aðalsteinsdóttir

2.880 kr.
Afhending