Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Þriðja hefti Tímarits Máls og menningar er komið út, fjölbreytt að vanda. Það einkennist sérstaklega af nýliðinni bókmenntahátíð – þar eru sögur eftir þær Can Xue, Svetlönu Alexievitch og Jenny Erpenbeck og ljóð eftir Ewu Lipsku, en allar voru þær gestir á hátíðinni.

Annarrar eftirminnilegrar heimsóknar höfundar er minnst í grein Friðriks Rafnssonar sem rifjar upp þegar Michel Houllebecq kom hingað, en nokkur ljóða hans birtast í þýðingu Hallgríms Helgasonar – og Sigurður G. Valgeirsson, formaður stjórnar hátíðarinnar rifjar upp þegar Kurt Vonnegut kom til landsins á bókmenntahátíð, og fleira sögulegt.

Barnabókmenntir fá hér sinn skerf: Þorleifur Hauksson fjallar fallega um hið klassíska snilldarverk Astrid Lindgren Bróður minn Ljónshjarta sem á fjörutíu ára afmæli um þessar mundir og Elín Björk Jóhannsdóttir skrifar bráðskemmtilega grein um Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson.

Að auki er menningarsöguleg grein eftir Jón Karl Helgason í heftinu og vangavelta eftir Árna Þór Sigurðsson alþingismann um samskipti Rússa og Bandaríkjamanna, en Árni lærði á sínum tíma í Rússlandi. Annars konar menningarsaga er í gömlu fjölskyldualbúmunum, sem sagnfræðingurinn Eggert Þór Bernharðsson fjallar hér skemmtilega um, með sérstakri tilvísun til sinnar eigin fjölskyldu. Auk þess eru í heftinu ljóð og sögur eftir Eirík Örn, Sigurlín Bjarneyju, Ármann Jakobsson, Öldu Björk Valdimarsdóttur og Steinar Braga. Loks eru ritdómar og ádrepur.

2.040 kr.
Afhending