Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Tímarit Máls og menningar, fyrsta hefti ársins 2013. Í heftinu kennir margra grasa að vanda; þar má finna ljóð, sögur og hugleiðingar, fræðilegar greinar, umsagnir um bækur og sitthvað fleira.

Ljóðin sem birtast að þessu sinni eru eftir þekkt og minna þekkt skáld, til að mynda Sigurlín Bjarneyju Gísladóttir sem þessa dagana sendir frá sér sína fyrstu ljóðabók, Bjarg. Einnig eru í heftinu ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur, Böðvar Guðmundsson og fleiri, auk þýðinga Vilborgar Dagbjartsdóttur á ljóðum norsku skáldkonunnar Kate Næss.

Birt er brot úr Vasaleikhúsi Þorvaldar Þorsteinssonar sem lést nú í febrúar – hið síðasta sem hann sendi frá sér á prent – og sögur eftir Ævar Örn Jósepsson og fleiri. Greinarnar í heftinu eru afar fjölbreyttar; um bókmenntir, þjóðfélagsmál og hugmyndasögu. Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar um framfarir, Guðmundur D. Haraldsson um vinnutíma, Milan Kundera um skáldskap, Þórarinn Leifsson um Gúmmí-Tarzan, Steinunn Inga Óttarsdóttir um rit Sveins Pálssonar náttúrufræðings og Sigurður A. Magnússon um Lísu í Undralandi.

Loks má telja hugleiðingu Sigríðar Halldórsdóttur, bréfaskipti Steinars Sigurjónssonar við útgefendur og ritdóma eftir þau Árna Bergmann og Soffíu Auði Birgisdóttur, sem einnig býr til prentunar gamlan palladóm um Þórberg Þórðarson.

Ritstjóri er Guðmundur Andri Thorsson.

2.040 kr.
Afhending