Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Meðal efnis í fyrsta hefti TMM árið 2010 eru sem fyrr bæði greinar og gagnrýni, nýsmíðar skálda á ýmsum aldri, ádrepur, viðtöl og annar fróðleikur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ritar greinina „Háskaleg og ósjálfbær samfélagstilraun“, og leitast þar við að greina orsakir efnahagshrunsins hér. Þorsteinn Antonsson fjallar um ástir Elíasar Marar og dregur fram forvitnileg handrit úr eftirlátnum fórum Elíasar. Árni Heimir Ingólfsson fræðir lesendur um framúrstefnu í íslensku tónlistarlífi á 7. áratugnum, hneykslanlegar uppákomur á vegum Musica Nova og skrautleg uppátæki ungu tónskáldanna eins og Atla Heimis og Magnúsar Blöndal.

Sigríður K. Þorgrímsdóttir skrifar persónulega grein um móður sína Jakobínu Sigurðardóttur og skáldsögu hennar Snöruna; Árni Finnsson gerir upp loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn og Stefán Pálsson sagnfræðingur fjallar um „hrunsbækur“.

Silja Aðalsteinsdóttir útgáfustjóri og leikhúsgagnrýnandi fer yfir leikárið 2009,  Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og rithöfundur viðrar hugmyndir sínar um Íslandsssafn og birt er ávarp Vésteins Ólasonar er flutt var á Jónsdegi 23. apríl sl. í Jónshúsi í Kaupmannahöfn þar sem hann dregur fram aðrar hliðar á menningarsamstarfi Dana og Íslendinga gegnum aldirnar en venjan hefur verið. Einnig er í heftinu birt viðtal Jónasar Knútssonar við ritstjóra bókmenntatímaritsins The Paris Review, Philip Gourevitch.

Að auki eru ljóð eftir Þórarinn Eldjárn, Þórdísi Björnsdóttur, Andrés Eiríksson, Finn Þór Vilhjálmsson, Sigurð Ingólfsson og Nazim Hikmet í þýðingu Jóns Kalmans Stefánssonar.

2.040 kr.
Afhending