Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Matthías Jochumsson

Leikritið Skugga-Sveinn eftir Matthías Jochumsson í flutningi Útvarpsleikhússins en leikstjóri er Viðar Eggertsson.

Leikritið Skugga-Sveinn eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson var fyrst sett á svið í Reykjavík árið 1862. Varla hefur nokkurt íslenskt leikrit verið leikið oftar hér á landi, mörgum kynslóðum til óblandinnar ánægju. Fá verk verðskulda heldur betur að teljast til sígildra íslenskra leikbókmennta.

Verkið er alþýðlegur gamanleikur með söngvum og efnið hjátrú, ótti við hið ókunna, ást og hatur. Persónurnar eru dregnar skýrum dráttum og kallast greinilega á við margt af því sem talið hefur verið einkenna íslenska þjóð í gamni og alvöru. Söguþráðurinn rekur  handtöku útlaga sem hafast við í óbyggðum. Inn í hann er fléttað ástarsögu bóndadótturinnar Ástu í Dal og Haraldar, ungs pilts sem er í slagtogi með útilegumönnunum en reynist, líkt og Ólíver Twist í samnefndri sögu Dickens, saklaus og af góðum ættum.

Mikill fjöldi öndvegis listamanna kemur að þessari upptöku verksins sem var fyrst flutt í útvarpinu á jólum 2005. Hljóðvinnslu annast Hjörtur Svavarsson. Leikstjóri er Viðar Eggertsson. Jóhann Sigurðarson leikur Skugga-Svein, Björgvin Franz Gíslason leikur Harald og Vigdís Hrefna Pálsdóttir Ástu í Dal. Með önnur hlutverk fara Theodór Júlíusson, Höskuldur Sæmundsson, Kjartan Guðjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Páll Sigþór Pálsson, Ívar Örn Sverrisson, Arnar Jónsson, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Pétur Eggertz, Guðmundur Ólafsson, Kjartan Bjargmundsson og Valur Freyr Einarsson.

ATH. Hljóðbókin er aðeins til á geisladiski (CD eða Mp3) sem er afhentur í pósti eða sóttur í Bókabúð Forlagsins. Hér má finna hljóðbækur okkar sem eru aðgengilegar rafrænt í streymi.