Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Hin glæsilega og eigulega ritröð um Sögu Reykjavíkur er nú til enda leidd með útgáfu þessara tveggja lokabinda verksins um tíu alda tímabilið frá 870 til 1870. Í fyrri hlutanum er m.a. farið yfir sögu landnáms og fyrstu byggðar á Íslandi, fjallað um þéttbýlismyndun og upphaf, ris og hnignun Innréttinganna á átjándu öld. Þar kemur margt spennandi í ljós, allt frá fyrsta verkfallinu á Íslandi til þorpsmyndunar í Reykjavík og fjallað er um mannréttindi og lífsbaráttu íbúanna.

Í seinni hlutanum fer bærinn að taka á sig skýrari mynd höfuðstaðar. Horft er til mannlífs út frá ýmsum sjónarhornum, reynt að setja sig í spor stríðandi alþýðu jafnt sem veisluglaðra góðborgara og erlendra ferðalanga sem tóku að heimsækja land og þjóð í byrjun 19. aldar. Margar myndir sem teknar voru á Íslandi í árdaga ljósmyndunar eru birtar í bókinni og margvíslegar töflur og ítarupplýsingar eru dregnar fram í dagsljósið. Um leið eru efnisþættir tengdir samtímanum í nútímalegu myndmáli á einkar viðfelldinn hátt. Þannig bera bækurnar samtíma sínum vitni um leið og þær veita okkur innsýn í horfna heima.

Í verkinu er reynt að glöggva sig á þróun atvinnulífsins um leið og fylgst er með sprotum nýrrar menningar, í menntamálum, stjórnmálum, leiklist, tónlist og félagsmálum. Saga Reykjavíkur er saga allra landsmanna og á heima á öllum íslenskum menningarheimilum.