Dögum oftar er höfundurinn beðinn um álit, skoðun, ávarp, hugvekju, ræðu, grein eða erindi. Afstaða undirritaðs hefur jafnan verið á eina lund: að segja já – trúr því hugboði að hlutverk höfundarins sé að skipta sér af því sem honum kemur ekki við. Berhentur, umboðslaus, oftar en ekki ólaunaður, en sannfærður um að leitin að merkingu sé leiðin til að ljá lífi okkar merkingu.
Péturspostilla – hugvekjur handa Íslendingum geymir safn erinda og greina sem Pétur Gunnarsson hefur tekið saman í áranna rás. Hér er komið víða við, sjálfsagðir hlutir settir glænýtt samhengi og aðrir sem ekki hafa endilega verið efstir á baugi eru kynntir til sögu með minnisstæðum hætti. Útkoman er lík öðru sem komið hefur frá höfundinum full af húmor, frumlegri hugsun og föstum tökum þess sem kann að láta ‚hugvekju‘ rísa undir nafni og gildir þá einu hvort nærföt eru til umfjöllunar, samgöngumál eða staða íslenskrar tungu.