Nei – fyrsta og eina ljóðabók Ara Jósefssonar – kemur nú út í þriðja sinn.
Hún kom út fyrst árið 1961 þegar höfundur var tuttugu og eins árs, seldist fljótlega upp en gekk milli manna í uppskriftum og ljósritum. Ari lést sviplega árið 1964 en bókin varð smám saman goðsögn og nokkur ljóð hennar, til dæmis „Leysíng“, „Stríð“ og „Trúarjátníng“, urðu klassísk í íslenskum bókmenntum. Í þessari þriðju útgáfu hefur verið bætt við þrem smásögum sem birtust í tímaritum og dagblaði meðan Ari lifði auk þess sem áður óbirtum ljóðum er skotið inn í eftirmála Silju Aðalsteinsdóttur frá annarri útgáfu, 1997.
Ari Jósefsson fæddist á Blönduósi 1939. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri en hætti þar og hélt til Reykjavíkur þar sem hann varð fljótlega áberandi í hópi ungu skáldanna, gaf meðal annars út tímaritið Forspil með Degi Sigurðarsyni og fleirum árið 1958. Veturinn 1959-60 dvaldist hann í Barcelona en las eftir það utanskóla við Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan stúdent 1961. Sama ár kom út ljóðabókin Nei. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum í tvö ár, hélt svo til Rúmeníu til að læra rómönsk fræði og var á heimleið þaðan þegar hann féll fyrir borð á Gullfossi og drukknaði, þann 18. júní 1964.