Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundar: Arnór Björnsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Óli Gunnar Gunnarsson

A: Psst … gaur, hvað er að gerast? Af hverju erum við aftan á bók?

Ó: Oh, varstu ekkert að fylgjast með? Við þurfum að kynna bókina okkar. Forlagið sagði okkur að gera það, manstu?

A: Já, til í það: Kæri lesandi. Þetta er besta bók í heimi. Nánar tiltekið er þetta aftan á BESTU BÓK Í HEIMI. Takk fyrir að lesa aftan á bestu bók í heimi. Núna máttu gjarnan kaupa hana!

Ó: Umm, nei. Þetta þarf að vera formlegra.

Eitthvað svona:
• Af hverju þarf unglingurinn að vakna snemma, meira að segja áður en sjálf sólin fer á fætur?
• Hvernig á að gera sig reddí fyrir ball?
• Er þetta bók eða er þetta kannski … kvikmynd?
• Er þessi bók kannski með athyglisbrest?
• Hver er Stefán?
• Hver er tilgangur unglingsins?

Arnór og Óli slógu í gegn með leikritinu Unglingurinn sem sýnt var fyrir fullu húsi í Gaflaraleikhúsinu og tilnefnt til Grímuverðlaunanna. Hér halda þeir áfram að rýna í sálarlíf unglinga með aðstoð metsöluhöfundarins Bryndísar Björgvinsdóttur. Þessi bók er fyrir alla unglinga, alla sem þekkja unglinga, alla sem hafa séð unglinga og alla sem áhuga hafa á undarlegri hegðun unglingsins, ástinni, nýjustu trendunum, handaböndum og því sem öllu máli skiptir: sorgum og sigrum.

* * * *
„… tilraunakennd, vel heppnuð og bráðfyndin … Það er svo mikið fjör hjá ungu rithöfundunum tveimur að það smitar lesandann ósjálfrátt … Rödd yngri höfundanna tveggja er sterk og stórskemmtileg. Bryndís Björgvinsdóttir er þögli leiðtoginn. Kannski má líta á bókina sem þriggja laga frásögn, þar sem Bryndís skrifar um Arnór og Óla sem skrifa svo um ímynduðu söguhetjuna Stefán. Bryndís skrifar um ferðalag höfundanna sem skrifa um ferðalag hetjunnar. Arnór og Óli eru svo ótrúlega geðugir piltar, svo ég notist við orðalag öldungsins; jákvæðni, einlægni og manngæska hreinlega leka af þeim og það lætur lesandanum líða eins og hann sé í fáránlega góðum félagsskap … Fróðleg og fyndin bók um unglinga, fyrir unglinga og þá sem einhvern tímann hafa verið unglingar. Þar að auki áhugaverð tilraun í bókmenntafræðilegum skilningi.“
Halla Þórlaug Óskardóttir / Fréttablaðið

„Svolítið óvenjuleg. Saga um hversdagslega hluti, en engir hlutir eru hversdagslegir, því fólk er vinir, misskilur hvort annað, langar eitthvað en þorir ekki, og gerir jafnvel eitthvað sem það langar ekki að gera, af því að það heldur að það sé töff. Þetta er skemmtileg bók aflestrar, vel skrifuð og fjörlega. Hún er snörp. … Þetta er kannski ekki kennslubók (í skapandi skrifum) en mjög góð innsýn inn í það hvernig bók verður til.“
Jórunn Sigurðardóttir / Orð um bækur

„… fyndin, hugvitssöm og frumleg að mjög mörgu leyti ásamt því að vera skemmtilega skrifuð og boða unglingum góðan boðskap – að standa með sjálfum sér.“
Helga Birgisdóttir /