Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Þorvaldur Kristinsson

Lárus Pálsson var einstæður áhrifamaður í sögu íslenskrar leiklistar. Þegar hann hóf nám við skóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn árið 1934 litu flestir landar hans svo á að það að leika væri „ekkert starf, bara grín“. En Lárus stefndi einbeittur að marki. Hann komst brátt til frama þar ytra en varð að hverfa heim til Íslands þegar Þjóðverjar hernámu Danmörk 1940.

Eftir heimkomuna varð Lárus einn mikilvirkasti leikari og leikstjóri þjóðarinnar og fyrstur manna til að starfa eingöngu og alfarið að leiklist hér á landi. Hann hafði skýra listræna sýn og auðgaði leiklistarlífið með nýjum víddum, annars konar metnaði og fjölbreyttari smekk en menn áttu að venjast. Þegar hann lést árið 1968 hvarf af sjónarsviðinu mikill listamaður sem á skammri ævi vann sleitulaust að því að skapa leikhús kunnáttumanna á Íslandi.

Þorvaldur Kristinsson segir þessa sögu af innlifun, alúð og listfengi og seilist víða eftir heimildum um liðna tíð. Lárus Pálsson leikari er í senn áhrifamikil og áleitin ævisaga, skörp aldarfarslýsing og heillandi menningarsaga.

Bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árið 2008.