Konungur norðursins eftir Val Gunnarsson (2007) er harmsaga Ilkka Hämälainen sem vinnur við ræstingar í farþegaferjum í Helsinki. Hann er tæplega þrítugur, feitur, þunglyndur og einmana og þrátt fyrir hálfvolga jógaiðkun og regluleg skot í afgreiðslustúlkum bendir ekkert til annars en að hann hafi lifað sitt fegursta. En þegar hann ákveður eitt kvöldið að lokinni vaktinni að verða eftir í ferjunni og drekka sig fullan tekst honum óafvitandi að slaga inn í árþúsunda gamla atburðarás. Ilkka finnur sig skyndilega knúinn til að halda norður á bóginn til að hafa uppi á Brísingameninu sem getur fært mönnum ástina og sverði Freys sem færir mönnum eilíft líf. En er annað einhvers virði án hins? Og hvaða afl hefur tekið sér bólfestu í Ilkka og berst nú við hann um yfirráð yfir líkama hans?
Valur Gunnarsson hefur með Konungi norðursins skapað rammheiðinn „norðra“. Í myndrænni og magnaðri sögu leikur hann sér með ævafornar goðsagnir, fléttar listilega saman fornnorrænan edduarf, finnskar þjóðsagnir úr Kalevala, samískan galdur og veruleika hins vestræna nútímamanns; hér fara menn sálförum milli þess sem þeir fá sér hamborgara og bjór. Sagan fer á milli árþúsundanna frá einu sviði til annars og smám saman æsist leikurinn uns norðar verður ekki komist og lokauppgjörið bíður.
Valur Gunnarsson hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir skrif í Reykjavík Grapevine og fleiri blöð, hér á landi og erlendis. Hann hefur stundað nám í sagnfræði og ritlist og búið víða um lönd, meðal annars lengi í Finnlandi. Konungur norðursins er fyrsta skáldsaga hans.
,,Konungur norðursins er í alla staði stórskemmtileg bók, þrælfyndinn og áhugaverður norðri.“
Börkur Gunnarsson / Viðskiptablaðið
,,Glæsilegt fyrsta verk höfundar.“
*** Jakob Bjarnar Grétarsson / Fréttablaðið
,,Þetta er frumleg bók og býsna skemmtileg, djörf.“
Egill Helgason / Kiljan
,,Þetta er fyrsta skáldsaga Vals Gunnarssonar og sjá má metnaðarfullan sagnamann stíga fram.”
Soffía Bjarnadóttir /Morgunblaðið
,,Það gerast óvæntir hlutir undir lok sögunnar og rétt að gefa ekki neitt upp, en fléttan gengur fullkomlega upp þótt maður efist kannski um að það sé mögulegt á tímabili. Þessi skáldsaga er mjög metnaðarfull frumraun.”
*** Jón Yngvi Jóhannsson / Ísland í dag / Stöð 2