Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Diane Wei Liang

Jaðiaugað er ný glæpasaga sem gerist í Kína nútímans en teygir anga sína aftur í myrka og spennandi fortíð. Í Jaðiauganu segir frá Mei, ungri konu sem var á uppleið innan kínverska stjórnkerfisins en fórnaði framanum fyrir sjálfstæðið og rekur nú einkaspæjarastofu í Peking. Verkefnin eru ekkert sérstaklega spennandi – fyrr en Chen frændi biður hana um að hafa uppi á fornum dýrgrip sem hvarf í menningarbyltingunni.

Er einhver að reyna að selja jaðiaugað á svarta markaðnum? Mei fer á stúfana og með því að beita innsæi sínu og klókindum tekst henni að komast á slóðina sem reynist liggja um veislusali og dimm húsasund, spilabúllur og glæsihótel – og mun nær hennar eigin fjölskyldu en hana hafði órað fyrir.

Höfundurinn, Diane Wei Liang, fæddist 1966, árið sem menningarbyltingin hófst. Hún ólst upp í vinnubúðum eins og söguhetja hennar og yfirgaf Kína eftir að hafa tekið þátt í stúdentamótmælunum á Torgi hins himneska friðar. Hér veitir hún innsýn í Kína nútímans, flókið og heillandi samfélag þar sem þungir og myrkir straumar ólga undir litríku yfirborðinu og dökk fortíðin er aldrei langt undan.

Jaðiaugað er í senn spennandi glæpasaga og ferðalag um Kína.

Karl Emil Gunnarsson þýddi.

„Þetta er einstaklega skemmtileg og áhugaverð bók sem ómögulegt var að leggja frá sér fyrr en hún var búin.”
Guðríður Haraldsdóttir / Vikan

„Eins og Bridget Jones mæti Val McDermid … Jaðiaugað grípur lesandann föstum tökum.“
The Tribune

„Klassísk spennusaga með alls kyns undirheimasamböndum og laumulegu hvísli í núðlusjoppum en undir liggur krufning á Kína fortíðar og nútíðar.“
Mark Coles, BBC

„Grípandi frásögn af kvenspæjara sem leitar að dýrmætum forngrip frá Han-tímabilinu í Peking nútímans; að hluta til spennusaga, að hluta til ferðalag um fortíð og nútíð borgarinnar.“
High Life

„Hefðbundin leynilögreglusaga sem hefur þó mun meira fram að færa – svipmyndir af Kína fortíðar og nútíðar … mjög tímabær og nútímaleg saga.“
The Ticket

„Sagan er skrifuð af svo mikilli tilfinningu að stundum er eins og maður sé að lesa sársaukafulla endurminningabók fremur en hefðbundna spennusögu … Höfundurinn dregur upp á yfirborðið afleiðingar erfiðra ákvarðana sem fólk neyddist til að taka til að lifa af ógnir menningarbyltingarinnar, þegar það átti á hættu að vera barið til bana fyrir það eitt að klæðast peysu af erlendum uppruna.“
The Australian

„Sannarlega grípandi bók.“
Tribune

„Dregur fram árekstra ólíkra menningarheima í kínversku samfélagi, árekstra milli nöturlegrar kommúnískrar fortíðar og neyslubrjálaðs kapítalísks nútíma.“
The Herald

„Við skulum vona að Jaðiaugað sé fyrsta bókin í flokki þar sem Mei er í aðalhlutverki.“
Asian Voice

„Kjarninn í Jaðiauganu er sorg, sorg sem er svo þungbær að tæpast er hægt að orða hana.Viljum við í rauninni vita sannleikann þegar hann er svona sár?“
Dagens Nyheter

„Ég hreifst mjög af bókinni og fannst Diane Wei Liang skrifa léttan og auðlæsilegan stíl en um leið tókst henni vel að sýna tilfinningar og litbrigði persónanna. Ég hlakka til að lesa margar fleiri sögur eftir Diane um Mei Wang.“
The Bookfiends Kingdom

„Leitin að jaðiauganu leiðir Mei – og lesandann – í ferðalag um nútímaborgina Peking en óhjákvæmilega einnig inn í fortíðina og á endanum að fortíð hennar eigin fjölskyldu …Við skulum vona að Jaðiaugað sé fyrsta bókin í flokki sagna af Mei, aðstoðarmanni hennar, gamla kærastanum hennar og fjölskyldu hennar, þar sem hún rifjar upp fleiri skelfilega og óbætta glæpi úr fortíðinni til að leysa mál í nútímanum. Mig langar til að eyða lengri tíma í félagsskap Mei.“
Reid Mitchell, Asian Review of Books

„Allt frá fyrstu síðu Jaðiaugans sýnir Diane Wei Liang að hún hefur hæfileika til að segja sögu.Við það bætist skörp kímnigáfa hennar, sem gerir söguna bráðskemmtilega … Jaðiaugað hefur þegar komið út í 25 löndum og notið mikillar hylli. Ekki er að efa að bókin markar upphaf á glæstum höfundarferli.“
Cairns Magazine