Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundar: Gro Dahle, Svein Nyhus

Stundum liggur vel á pabba, þá hlær mamma og allt er gott.  En stundum dregur pabbi dökku hlerana fyrir augun og harðlokar andlitinu. Þá vill Illi kall komast út  og það er alveg sama hvað Bogi lofar að vera góður, Illi kall tekur völdin og allir sjá það nema pabbi.  Á eftir er pabbi leiður og lofar að reiðast aldrei aftur. Boga finnst hann vera lokaður á bak við þúsund læstar dyr en á endanum finnur hann samt leiðina út – hann segir frá og pabbi fær hjálp.

Sigrún Árnadóttir þýddi.

Bókin er gefin út af Máli og menningu í samstarfi við Barnaverndarstofu. Henni er ætlað að opna umræðu um áhrif heimilisofbeldis á börn og hjálpa fullorðnum í nærumhverfi barna til að ræða viðfangsefni hennar við börn.

Sagan á erindi við alla, fullorðna, unglinga og börn sem komin eru með þroska til að meðtaka viðfangsefni hennar. Boðskapurinn er tvíþættur:  Það er hægt að leysa jafnvel illviðráðanlegustu vandamál og lykillinn að lausn slíkra vandamála er ævinlega að segja frá.

Fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi getur þessi vitneskja skipt sköpum.

Grunur um ofbeldi?
Ofbeldi á heimilum hefur alltaf áhrif á börn, hvort sem barnið verður sjálft fyrir því eða ekki. Rannsóknir sýna að 40% barna sem verða fyrir ofbeldi eða verða vitni að ofbeldi, þróa með sér líkamleg og andleg einkenni sem þau þurfa aðstoð með. Afleiðingar ofbeldis koma jafnvel fram í margskonar heilsufarsvanda mörgum árum eftir að ofbeldið á sér stað.

Ef barn tekur það skref að segja frá er mikilvægt að bregðast rétt við:
•    Trúðu barninu
•    Tilkynntu málið til barnaverndarnefndar
•    Láttu barnið vita að það var rétt að segja frá
•    Fullvissaðu barnið um að ofbeldið sé ekki því að kenna
•    Hlustaðu á barnið en ekki yfirheyra það
•    Tryggðu öryggi barnsins
•    Mundu að þín viðbrögð skipta máli fyrir horfur barnsins og hvernig það tekst á við afleiðingar ofbeldisins.

Ef þig grunar að barn búi við ofbeldi á heimili sínu er mikilvægt að fylgja honum eftir.  Á heimasíðu Barnaverndarstofu, er að finna upplýsingar og leiðbeiningar um næstu skref.

3.230 kr.
Afhending