Við lesum guðspjöllin í gegnum tvö þúsund ára hefð, og allan þann tíma hafa kirkjuyfirvöld leitast við að skammta okkur skilning. Auk þess skrifa guðspjallamennirnir af ákveðnum myndugleik og stundum með ákveðinni túlkun – og skálda í eyður. Þeir skrifa löngu eftir að atburðirnir gerðust, og þeir vita hvernig fór.
En þeir sem mættu Jesú og vissu ekkert um hann annað en þeir reyndu sjálfir fyrirvaralaust? Hvernig hugsuðu þeir? Hvernig brugðust þeir við?
Í tíu tengdum smásögum endurskapar Njörður P. Njarðvík af listfengi þann hluta vegferðar Jesú sem kristnum mönnum er alla jafna hugleiknastur. Atburðirnir birtast lesandanum í nýju ljósi – í gegnum skáldskapinn er leitað svara við spurningunni um hver Jesús var. Og þeir sem spyrja eru ekki síður forvitnilegir.
Uppheimar gáfu út.