Hlutabréf eru besta leiðin til að byggja upp eignir. Í Hlutabréfum á heimsmarkaði – eignastýring í 300 ár er leitast við að auka skilning og gefa betri yfirsýn um alþjóðlegan fjármálamarkað. Með betri þekkingu verður fjárfesting markvissari og dýpri skilningur næst á þeirri áhættu sem viðskiptunum fylgir. Heimsmarkaðurinn er okkar heimamarkaður.
Höftum á gjaldeyrismarkaði á Íslandi var að mestu rutt úr vegi árið 2017 en heimildir til viðskipta með erlend verðbréf höfðu verið háðar takmörkunum frá nóvember 2008. Við afnám hafta vöknuðu til lífsins spurningar sem legið höfðu í dvala í nærri áratug. Hvar er að finna góða ávöxtun, í hvaða löndum er vænlegast að fjárfesta, hvaða aðferðir er best að nota og síðast en ekki síst, hvernig er hægt að verjast óhóflegri áhættu? Í bókinni er leitað svara við þessum spurningum sem raunar brenna daglega á vörum margra fjárfesta og sjóðstjóra. Í fjármálafræðinni og reynslubúri fjárfesta er oft að finna mismunandi svör við hverri spurningu. Ólíkar kenningar við greiningu og mismunandi forsendur eru helstu skýringar og í bókinni er lýst hvernig stundum er hægt að sameina það besta frá helstu skólum eignastýringar til að bæta árangur.
Hlutabréf á heimsmarkaði – eignastýring í 300 ár byggir á langri reynslu og þekkingarleit höfunda sem hafa sérhæft sig í eignastýringu.
Svandís Rún Ríkarðsdóttir og Sigurður B. Stefánsson höfundar bókarinnar hafa áratuga reynslu af eignastýringu. Saman rituðu þau Lesið í markaðinn – leitin að bestu ávöxtun (2016) en Sigurður B. er ritstjóri Hlutabréfa og eignastýringar (2003), Verðbréfa og áhættu (1994) og Hlutabréfamarkaðarins (1990).