Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Harðar saga er, eins og flestar sögur þessa bindis, ýkjusaga frá 14. öld. Hörður er hraustur fullhugi, en óstýrilátur og dæmdur sekur skógarmaður. Hafðist hann síðast við í Geirshólmi í Hvalfirði með mönnum sínum sem kallaðir voru Hólmverjar, og lifðu þeir af ránum uns þeir voru sviknir og vegnir í griðum. En Helga kona Harðar, jarlsdóttir frá Gautlandi, bjargast frækilega á sundi úr hólminum með tvo syni þeirra.

Bárðar saga segir frá Bárði Dumbssyni sem er blendingur af ætt trölla og manna og hefst við í Snæfellsjökli. Hann er mörgum bjargvættur og einnig börn hans tvö, Helga og Gestur. Sagan er mjög ýkjufull og yfirnáttúrleg, en hana prýða nokkrar sérstæðar og merkilegar vísur, og í frásögnum af Helgu Bárðardóttur bregður fyrir angurværum blæ.

Þorskfirðinga saga (eða Gull-Þóris saga) hefur að hetju kappann Þóri sem hlýtur viðurnefni sitt af því að hann vinnur fé mikið frá víkingum sem brugðist höfðu i flugdrekaham og lágu á gullinu í helli einum norður við Dumbshaf. Og sagan segir að menn hafi það fyrir satt að Þórir hafi sjálfur brugðist í ormslíki og lagst á gullkistur sínar þar sem síðan heitir Gullfoss í Þorskafirði.

Flóamanna saga er auðug af fjölbreyttu frásagnarefni sem er að nokkru sótt í Landnámu og fornaldarsögur, en jafnframt grillir í arfsagnir. Garpur sögunnar er Þorgils Þórðarson sem nefndur var Örrabeinsstjúpur. Einna áhrifamestar eru frásagnir af för hans til Grænlands þar sem hann lendir í miklum hrakningum.

Í þessu bindi eru einnig nokkrir þættir sem nefndir skulu stuttlega:

Þórarins þáttur Nefjólfssonar er dæmisaga um Íslending sem verður fyrir rógi og fellur í ónáð hjá Noregskonungi, en réttir hlut sinn er hið sanna kemur í ljós.

Þorsteins þáttur uxafóts segir frá garpi sem berst við tröll, bæði lifandi og afturgengin.

Egils þáttur Síðu-Hallssonar er mjög forn dæmisaga, rituð til að sýna mátt og dýrð Ólafs konungs helga þegar í lifanda lífi.

Orms þáttur Stórólfssonar hermir frá miklum aflraunagarpi eins og Þorsteins þáttur uxafóts, enda sýnileg tengsl milli þáttanna sem báðir nutu mikilla vinsælda fyrr á tímum. Lýsing Orms er þó einkum sniðin eftir Gretti Ásmundarsyni, en Ormur tekur fyrirmyndinni fram að ofurmennsku afli.

Þorsteins þáttur tjaldstæðings segir frá göfugum landnámsmanni sem hlaut viðurnefni af því að hann tjaldaði yfir sóttveika farmenn sem enginn annar vildi liðsinna.

Þorsteins þáttur forvitna
er dæmisaga um mann sem leysir erfiða þraut til yfirbótar fyrir hnýsni sína.

Bergbúa þáttur og Kumlbúa þáttur verða samferða í handritum og eiga það sameiginlegt að þar flytja yfirnáttúrlegar verur kveðskap fyrir mönnum. Í fyrra þættinum kveður bergbúinn Hallmundur dróttkvæðan flokk, og er þar að finna merkilega lýsingu á eldgosi. Í síðara þættinum tekur maður að nafni Þorsteinn sverð úr kumli. Eigandinn birtist honum í draumi og heitist við hann í vísu, en Þorsteinn svarar fullum hálsi í annarri vísu.

Stjörnu-Odda draumur hefur sem söguhetju Odda sem kunnur er fyrir stjörnuathuganir á 12. öld. Samkvæmt þættinum átti hann heima á Múla í Aðaldal. En þátturinn er raunar fornaldarsaga sem Oddi upplifir í merkilegum draumi, og fylgja brot úr tveimur kvæðum.

Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson gáfu út með inngangi og skýringum.

6.230 kr.
Afhending