Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Böðvar Guðmundsson

Í þriðja og síðasta bindi Bréfa Vestur-Íslendinga birtast bréf fólks sem hóf að skrifa heim á 20. öldinni. Sumir voru þá nýfluttir vestur um haf, aðrir voru börn landnemanna sem fyrstir fóru af stað; fólk sem aðeins þekkti Ísland af frásögnum þeirra sem eldri voru. Ung stúlka á sléttum Manitoba biður frænku á Hesteyri að lýsa fyrir sér fjalli. Systur komast í bréfasamband eftir áratugalangan aðskilnað. Og fjörgamalt fólk vill vita hvort æskuvinirnir heima séu lífs eða liðnir.

Efni bréfanna litast af innreið nútímans og unga fólkinu stendur til boða að ganga menntaveginn. Mörgum hinna eldri þykir sárt að horfa upp á afkomendurna samlagast nýju þjóðfélagi og tapa niður íslenskunni. Og sem fyrr er tekist hart á um stjórnmál, trúmál og menningararf í Nýja-Íslandi.

Það er fagnaðarefni að lokabindi þessarar merkilegu ritraðar skuli nú loksins koma út. Hér hefur Böðvar Guðmundsson tekið saman bréf 61 nýs bréfritara sem eru í senn heillandi lesning og ómetanleg heimild um vesturíslenskt samfélag.

7.160 kr.
Afhending