Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: René Descartes

René Descartes er talinn til mestu heimspekinga fyrr og síðar. Verk hans eru til marks um byltingu í aðferðafræði heimspeki og vísinda og hann er jafnan talinn faðir nútímaheimspeki. Hugleiðingar um frumspeki, sem fyrst komu út árið 1641, eru frægasta verk hans og jafnframt eitt mikilvægasta rit heimspekisögunnar.

Descartes setti sér það markmið að smíða áreiðanlegan grunn undir þekkingu og vísindi og skapaði í reynd þá þekkingarfræði sem allsráðandi hefur orðið á nýöld. Í Hugleiðingunum beitir hann efahyggju sem verkfæri til að komast að því hvort hann geti vitað nokkuð með algjörri vissu. Niðurstaða hans er víðfræg: „Ég hugsa, þess vegna
er ég til“ – það er að segja: þótt hann geti efast um allar skynjanir sínar, efnisheiminn og hin augljósustu sannindi, er honum eftir sem áður með öllu ómögulegt að efast um tilveru sjálfs sín, hugarins sem hefur efasemdirnar.

Á grundvelli þessarar uppgötvunar leiðir Descartes síðan rök að tilvist Guðs og aðgreiningu sálar og líkama. Þær hugmyndir sem eru jafnskýrar og jafngreinilegar og skynjun sannindanna um eigin tilveru geta ekki verið rangar. Descartes telur að slík sé bæði hugmynd okkar um Guð og hugmyndin um hugann sem verund óháða líkamanum. Röksemdir hans eru reyndar margslungnar og frumlegar og ollu hatrömmum deilum eftir að bókin kom fyrst út. Kaþólska kirkjan bannaði verk Descartes eftir dauða hans enda þótt hann legði sig fram um að sleppa gegnum nálarauga hennar og tileinkaði meðal annars Hugleiðingarnar guðfræðideild Svartaskóla.

Þær eru raunar skrifaðar innan hefðar sem fyrst og fremst á sér trúarlegar rætur. Formið er „eintal sálarinnar“ og hugleiðingar með þessu sniði voru algengar í trúarritum á fyrstu öldunum eftir siðaskipti, gjarnan með því móti að ein hugleiðing var fyrir hvern dag vikunnar. Upphaf þessarar bókmenntagreinar má rekja til Játninga heilags Ágústínusar og ýmsar hliðstæður eru raunar með verkunum tveimur, en í höndum Descartes verður eintalið röklegt verk sem miðar að traustum sannleiksgrunni undir vísindin fremur en því að þekkja Guð. Stíll Descartes er hvorki upphafinn né tyrfinn heldur einstaklega látlaus og skýr, svo að þessi hornsteinn nútímaheimspeki er auðlesinn og hrífandi jafnt fyrir leika sem lærða.

Formáli Þorsteins Gylfasonar er ítarleg ritgerð um heimspeki Descartes þar sem einnig er tæpt á sögu Hugleiðinganna og menningarlífi í Evrópu og á Íslandi við upphaf nýaldar.

Þýðandi: Þorsteinn Gylfason.

Annað höfuðverk Descartes, Orðræða um aðferð, hefur einnig komið út sem Lærdómsrit.

3.570 kr.
Afhending