Við upphaf Skuggasjónaukans virðist heimurinn á heljarþröm. Lýra er horfin sporlaust, faðir Wills er dáinn og hann er sjálfur aleinn og ráðalaus einhvers staðar í Cittàgazze-heiminum.
Honum hefur verið skipað að fara með lúmska hnífinn til Asríels lávarðar – það var hinsta ósk föður hans sem lést eftir árás nornarinnar á fjallinu – en hvernig getur Will hugsað um annað en að finna Lýru? Í fylgd englanna Baruks og Baltamosar leggur Will upp í leitina að vinkonu sinni, því aðeins sameinuð geta þau lagt Asríel lávarði lið í því mikla stríði sem hann er að búa sig undir að heyja.
Hér er saga Lýru og Wills, Rogers og sígyptanna, Asríels lávarðar og hinnar dularfullu frú Coulter, aleþíuvitans og lúmska hnífsins leidd til lykta. En fyrst þurfa Lýra og Will að ferðast um marga heima, jafnvel allt til heims hinna framliðnu …
Skuggasjónaukinn, lokabindi þríleiks Philips Pullmans um myrku öflin, hlaut 2001 hin virtu Whitbread-verðlaun sem engin barnabók hafði hreppt fram að því. Fyrri bindin tvö, Gyllti áttavitinn og Lúmski hnífurinn, eru einnig margverðlaunuð í heimalandi sínu og utan þess, og hlutu fádæma góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda hér á landi.