Sjötti hádegisverðarfundur Churchill klúbbsins:

Nánari Lýsing

 

Sjötti hádegisverðarfundur Churchill klúbbsins:
CHURCHILL OG NORÐURSLÓÐIR
Fyrirlesari: Magnús Þór Hafsteinsson
-----------------------------------------
Dagur: Laugardagurinn 2. mars 2013.
Staður: Nauthóll veislusalur, Nauthólsvík, Reykjavík.
Tími: Kl. 12:00 - 13:30
-----------------------------------------
Dagskrá:
11:45 Húsið opnar.
12:00 - 12:30 Hádegisverður
12:30 - 13:15 Erindi: Magnús Þór Hafsteinsson
13:15 - 13:30 Umræður/fyrirspurnir
13:30 Fundarlok
-----------------------------------------
Litlu munaði að Roosevelt, Stalín og Churchill hittust á sínum fyrsta leiðtogafundi í Hvalfirði. Churchill heimsótti Ísland þann 16. ágúst 1941 á heimleið sinni austur yfir Atlantshafið eftir frægan fund með Roosevelt Bandaríkjaforseta. Þá sagði hann Hermanni Jónassyni forsætisráðherra á fundi þeirra í Alþingishúsinu að hefðu Þjóðverjar hernumið Ísland þá hefðu Bretar neyðst til að taka það af þeim. Slíkt var mikilvægi Íslands fyrir styrjaldarreksturinn og hagsmuni Bandamanna.

UM FYRIRLESTURINN:

Winston Churchill kom aldrei norðar á hnettinum en í Hvalfjörð þegar hann heimsótti Ísland í ágúst árið 1941. Þrátt fyrir það var hann öll ár seinni heimsstyrjaldar mjög upptekinn af norðurslóðum og hernaðinum þar. Churchill gaf grænt ljós á aðgerðir Breta í Noregi sem lyktaði með því að Þjóðverjar lögðu landið undir sig. Winston Churchill var einnig helsti hvatamaður þess að Íshafsskipalestirnar hæfu siglingar sínar frá Íslandi skömmu eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin sama sumar og hann kom hingað til lands.

Þær siglingar sannfærðu Stalín og félaga hans um að Bretar og síðar Bandaríkjamenn ætluðu að standa með Sovétríkjunum í baráttunni gegn herjum nasista á Austurvígstöðvunum þar sem háð voru ofsafengnustu og blóðugustu átök sem mannkyn hefur upplifað. Ísland varð lykillinn að því að þessar siglingar væru mögulegar og táknrænt hlutverk landsins svo mikilvægt í augum stórveldanna þriggja að litlu munaði að Roosevelt, Stalín og Churchill hittust á sínum fyrsta leiðtogafundi í Hvalfirði en Churchill var aðalhvatamaður þess.

Adolf Hilter endurgalt áhuga Churchills á norðurslóðum og sýndi þessu heimsvæði ekki minni áhuga en kollegi hans í Lundúnum. Báðir töldu að norðurslóðir væru meðal helstu örlagasvæða styrjaldarinnar. Í erindi sínu mun Magnús Þór varpa ljósi á þessa atburði, leitast við að skýra hlutverk Churchills í þeim og hvers vegna norðurslóðir skiptu svo miklu máli í afstöðu breska forsætisráðherrans til stríðsrekstursins.

UM FYRIRLESARANN:

Magnús Þór Hafsteinsson er með meistaragráðu í fiskifræði frá Háskólanum í Björgvin í Noregi. Hann hefur starfað að hafrannsóknum, fjölmiðlun, stjórnmálum og nú síðast ritstörfum. Á undanförnum tveimur árum hefur hann sent frá sér ritverk í tveimur bindum, alls um þúsund síður, sem segja sögu hernaðarins á norðurslóðum í seinni heimsstyrjöld.

Þetta er bækurnar Dauðinn í Dumbshafi (2011) og Návígi á norðurslóðum (2012). Þessi stórbrotna og oft á tíðum ótrúlega saga er sögð út frá siglingum skipalestanna sem sigldu með hergögn frá Bretlandseyjum, um og framhjá Íslandi norður í Íshaf til hafna í Norðvestur Rússlandi.

UM KLÚBBINN:

Churchill klúbburinn á Íslandi sem tilheyrir Stjórnunarfélagi Íslands, er hugsaður sem fræðsluvettvangur um ævi og störf Sir Winston Churchill og þau gildi sem hann hafði í heiðri: Hugrekki, staðfestu, stórlyndi, velvilja og virðingu fyrir lýðræði og frelsi einstaklingsins. Hann hefur áður haldið fimm hádegisverðarfundi og verður þessi næsti fundur sá sjötti í röðinni og annar á árinu 2013.

Klúbburinn fékk nýlega aðild að the Churchill Centre sem aðildarfélag (affiliate) en það er alþjóðlegur félagsskapur til að halda minningu Sir Winston Churchill á lofti.

Hér má finna klúbbinn á Facebook: https://www.facebook.com/churchillcluboficeland
Smáa Letrið
Dagur: Laugardagurinn 2. mars 2013. Staður: Nauthóll veislusalur, Nauthólsvík, Reykjavík. Tími: Kl. 12:00 - 13:30

Gildistími: Invalid Date - 02.03.2013

Notist hjá

Vinsælt í dag